Strandamót
Lið Eflingar á Strandamótinu á Árskógssandi í júlí. Sváfnir, Guðmann Andri, Tómas Karl, Daníel Orri, Viktor Breki, Jóel, Pétur Friðrik, Eyþór og Ívar.

Sumarið er búið að vera gott hjá Eflingu þetta árið. Mjög fín þátttaka er á æfingum á mánudögum og miðvikudögum þar sem Stefán ,,þjálfari“ Valþórsson hefur séð um að krakkarnir fái sem mest út úr hverri æfingu.

Efling sendi knattspyrnukappa á Strandamótið á Árskógssandi í byrjun júlí. Drengirnir stóðu sig mjög vel og unnu frækna sigra. Framundan í þeim efnum eru 2 mót í ágúst. Fyrst Kíwanismót á Húsavík og síðan Nikulásarmót á Ólafsfirði, en öll þessi mót eru fyrir iðkendur 10 ára og yngri.

Efling var einnig með 2 lið á Héraðsmóti sem haldið var á Laugum í tenglsum við Sumarleika HSÞ 1. júlí. Eflingarliðin unnu þar 2 lið frá UMFL auk þess að mætast innbyrðis þar sem Efling vann 🙂

Frá Héraðsmóti á Laugum 1. júlí
Frá Héraðsmóti á Laugum 1. júlí

Golfvöllurinn hefur verið í fínu standi fyrir tilstilli þeirra Konna og Halls sem hafa verið duglegir að sjá um völlinn í sumar. Heimafólk mætti vera duglegra að nýta sér þessa skemmtilegu aðstöðu sem er opin og gjaldfrjáls. Stærsta verkefni golfnefndar í sumar verður hins vegar 7. ágúst n.k. þegar við munum standa fyrir mikilli golfgleði fyrir golfara 12 ára og yngri á Norðurlandi í samstarfi við Golfkúbb Akureyrar.

Hátíðarhöldin á 17. júní tókust líka vel þar sem veðrir lék við gesti. Fjallkona að þessu sinni var Anna Karen Unnsteinsdóttir og var hún glæsileg í sínu hlutverki. Farið var í leiki og grillaðar pylsur og síðan var bíósýning í ,,Lauginni“ í Framhaldsskólanum.

Næstu helgi er Unglingalandsmót UMFÍ og óskum við öllum þátttakendum HSÞ góðs gengis á því móti.